Sep 14, 2008

Litla systir komin í heiminn

Ragnar Steinn og Þorsteinn eru orðnir stóru bræður!! Litla systir er ótrúlega sæt eins og sjá má af meðfylgjandi myndum.











Aug 1, 2008

Móskarðshnjúkar - myndir

Móskarðshnjúkar

Við létum loks verða af því sem talað hafði verið um í nokkurn tíma og ákváðum að sigrast á fallega líparít-tindinum sem liggur milli Skálafells og Esju og tilheyrir hinum svokölluðu Móskarðshnjúkum. Pabbinn hefður áður farið upp, austanmegin, en nú var farið upp vestanmegin og verður að segjast að sú ganga er töluvert skemmtilegri.

Ég skelli upp örfáum myndum núna og set svo almennilega myndasýningu fljótlega.

Þorsteinn gæðir sér á hressingu. Tindurinn í baksýn.


Gengið upp troðning á miðhnjúknum.

Horft niður eftir Norðurárdal úr skarðinu milli tveggja austustu tindana.

Jul 30, 2008

Þjórsárdalur

Við komum fyrir nokkrum dögum úr ljómandi góðri ferð austan úr Þjórsárdal. Við stoppuðum eitt andartak á Flúðum þar sem Bylgjuhraðlestin hafði hertekið svæðið með tilheyrandi hávaða- og sjónmengun... þannig að við hröðuðum okkur út í óbyggðirnar - ekki síst að ósk strákana - sem leið lá inn eftir Þjórsárdal. Áður en við komum okkur fyrir á Tjaldstæðinu í Sandártungu skoðuðum við þjóðveldisbæinn við Búrfellsvirkjun og fórum í sund í Reykholtslaug. Sandártunga er sæmilegasta tjaldsvæði og hefur sér helst til ágætis að þar við rennur Sandá, fallegur og leikjavænn vatnsstraumur, sem við gerðum að okkar megin viðverustað í útivistinni.




Veðrið var einstaklega gott þangað til á sunnudeginum að fór að rigna... enda komum við okkur heim hið snarasta eftir að hafa mátt þola fimbulkulda á næturnar. Ekki mátti maður við því að geta ekki komið í sig il yfir daginn. Ég hef aldrei komið þarna áður en hef sannarlega hug á því að rannsaka betur svæðið þegar tækifæri gefst...

Gamalt og gott

Jul 6, 2008

Sveit - brúðkaup

Eftir langar fjarvistir fórum við feðgar í sveitina um helgina. Móðurbróðir þeirra var að gifta sig og við skelltum okkur í sumarbústað ömmunnar og afans rétt hjá sveitakirkjunni og héldum þar til. Brúðkaupið fór vel og prúðlega fram og allir komust klakklaust til síns heima - misseint þó.

Lagt af stað í sveitina

Hundurinn Birta er ofsalega mikið krútt


Andi ástar og samlyndis sveif yfir vötnum.

Jun 20, 2008

Austurvöllur/Sundhöll

Við fórum í hjólaferð strax daginn eftir ferðina miklu kringum flugvöllinn. Reyndar var ákveðið að gera það með nokkuð breyttu sniði í þetta skipti. Þannig var nestið borðað niðri á Austurvelli. Hive kerran koma aðsvífandi þar sem við flatmöguðum undir gráelrinum og fór með strákana í túr um bæin, sem var að sögn mjög gaman en fólkinu í bænum var víst nokkuð starsýnt á farþegana (þó líklega hafi það verið farartækið sem vakti áhugann).

Að þessu loknu var haldið í Sundhöll Reykjavíkur þar sem við busluðum í grunnu lauginni eftir að hafa slakað á í pottinum í góða stund. Sundhallarfólkið er búið að setja heitari pottinn þar sem sá svalari var áður og því fórum við feðgarnir rakleiðis ofan í 42 gráður og létum okkur vel líka. Skarpskygni yngri mannanna varð þó til þess að við skiptum yfir í þægilegri pottinn áður er yfir lauk.

Á svölunum í höllinni er sólbaðsaðstaða eða einhvers konar vindþurrkunar staður fyrir alsbera karla. Uppgötvun dagsins er sú að við erum ákafir aðdáendur þess að liggja í sólinni og láta bakast að sundi loknu þannig að í framtíðinni verður sá háttur hafður á að lokinni sturtuferð að við munum smyrja okkur sólkremi og bakast að því loknu undir hægum eldi. Frábær endir á góðum hjólatúr...




Jun 18, 2008

Hjólatúr

Feðgarnir eru loksins allir komnir á hjól og getum því sameinað samveru, útivist, hreifingu og ýmislegt fleira í einum og sama gjörningnum. Um daginn hjóluðum við frá mömmunni og heim í Stangarholtið, en núna fórum við í almennilegan túr. Við byrjuðum á því að fara niður í Hljómskálagarð, þar sem klifurgrindin fékk að finna aðeins fyrir því - en ekki of lengi því að við vorum á massívu tímaplani. Frá Hljómskálagarði fórum við upp að Háskóla og niður Suðurgötuna í áttina að Skerjafirði. Þar settumst við á bekk og borðuðum nesti og héldum svo áfram í átt að Nauthólsvík. Í Nauthólsvík var farið að hvessa og heyrðist kvart úr horni. Þá var mannskapnum skipað að setja í hærri gír og bruna í skjól trjánna í Fossvogskirkjugarði.

Þegar þangað var komið stigum við af fákunum og röltum okkur í rólegheitum meðfram legsteinunum upp eftir öskjuhlíðinni. Nú fór að styttast í lok túrsins og þegar við vorum við það að koma heim stundi ónefndur sonur upp úr sér að núna væri hann til í að snúa við og fara heim... þá höfðum við hjólað í einn og hálfan tíma og lagt að baki rúmlega tíu kílómetra. :)

Þegar heim var komið fengum við okkur kjúklingasúpu - eina vitið!