Jun 20, 2008

Austurvöllur/Sundhöll

Við fórum í hjólaferð strax daginn eftir ferðina miklu kringum flugvöllinn. Reyndar var ákveðið að gera það með nokkuð breyttu sniði í þetta skipti. Þannig var nestið borðað niðri á Austurvelli. Hive kerran koma aðsvífandi þar sem við flatmöguðum undir gráelrinum og fór með strákana í túr um bæin, sem var að sögn mjög gaman en fólkinu í bænum var víst nokkuð starsýnt á farþegana (þó líklega hafi það verið farartækið sem vakti áhugann).

Að þessu loknu var haldið í Sundhöll Reykjavíkur þar sem við busluðum í grunnu lauginni eftir að hafa slakað á í pottinum í góða stund. Sundhallarfólkið er búið að setja heitari pottinn þar sem sá svalari var áður og því fórum við feðgarnir rakleiðis ofan í 42 gráður og létum okkur vel líka. Skarpskygni yngri mannanna varð þó til þess að við skiptum yfir í þægilegri pottinn áður er yfir lauk.

Á svölunum í höllinni er sólbaðsaðstaða eða einhvers konar vindþurrkunar staður fyrir alsbera karla. Uppgötvun dagsins er sú að við erum ákafir aðdáendur þess að liggja í sólinni og láta bakast að sundi loknu þannig að í framtíðinni verður sá háttur hafður á að lokinni sturtuferð að við munum smyrja okkur sólkremi og bakast að því loknu undir hægum eldi. Frábær endir á góðum hjólatúr...




4 comments:

Þórdís said...

Þið feðgar kunnið greinilega að njóta sumarsins :)

Anonymous said...

Þið voruð svo ansi myndarlegir á hjólunum um daginn...að ég þekkti ykkur ekki ;)

Þór Steinarsson said...

Hverskonar aðdróttanir eru þetta Hildigunnur??

Anonymous said...

fyrirgefðu, ég mátti til ;)